Linda Rós

lindaros

[*] Nafn:
Linda Rós Helgadóttir

[*] Aldur:
34 (fædd 1980)

[*] Starf:
Þjónustufulltrúi hjá Opnum kerfum

[*] Hvenær byrjaður þú í dansinum?
3. mars 2013

[*] Af hverju byrjaðirðu í dansinum?
Mig hafði langað að byrja að dansa síðan ég var unglingur en var alltof rög framan af. Með mikinn félagskvíða og frammistöðukvíða. Ég fór á nokkur byrjendakvöld í Salsa haustið 2009 og ætlaði alltaf að fara á námskeið en frestaði því alltaf, fann mér alltaf einhverjar afsakanir og þorði ekki ein. Þetta var bara svo langt út fyrir þægindahringinn. Ég fór svo á Dale Carnegie námskeið 2012 og var búin að vinna mikið í sjálfri mér síðan 2009. Þægindahringurinn var orðinn svo mikið stærri og loks fann ég hugrekkið til að mæta á námskeið og komst að því að þetta væri bara nákvæmlega ekkert mál!

[*] Af hverju valdirðu þann dans/þá dansa sem þú dansar?
Mig langaði í marga dansa, t.d West Coast Swing, Lindy Hop, Swing & Rock’n’Roll og Salsa. Eina námskeiðið sem var að byrja loks þegar ég ákvað að mæta var Salsa svo Salsað varð fyrir valinu. Ég hef svo aðeins daðrað við Bachata, West Coast Swing, Kizomba og Chachacha en Salsa er minn aðal dans.

Hér er listi yfir þau dansnámskeið sem ég hef tekið.

[*] Ef þú dansar marga dansa, hver er þinn uppáhalds og af hverju?
Ég á erfitt með að gera upp á milli en Salsa er nú minn uppáhaldsdans því ég byrjaði þar og er sterkust í þeim dansi. Einnig er ég búin að eignast svo marga vini og kunningja í því danssamfélagi. Það eru líka hvergi jafn mörg námskeið í gangi og í Salsanu og það er stærsta danssamfélagið á Íslandi. En ég er ofsalega skotin í West Coast Swing líka, mjög skemmtilegt að geta dansað WCS á skemmtistöðum niðri í bæ því tónlistin þar hentar WCS vel. Einnig er Bachata mjög skemmtilegur dans, þó ég hafi nú upphaflega sagt að ég myndi aldrei dansa hann, því þetta er mjög náinn dans, en með réttum dansfélaga myndast góð tenging sem gerir þennan dans mjög skemmtilegan. Er líka nýbúin að kynnast Kizomba og hann vinnur á.

[*] Hvað er það besta við dansinn?
Allt! Þetta er eitt besta geðlyf í heimi. Enda heitir þessi síða dansmanía því ég kemst oft í dansmaníu á danskvöldunum og svíf oft heim í hálfgerðri vímu. Dansinn snýst ekki bara um að dansa. Heldur er þetta líka rosalega mikið félagslíf. Maður mætir á danskvöldin og spjallar við hina og þessa og svo bröllum við oft eitthvað fyrir utan danskvöldin og námskeiðin. Ég er t.d búin að vera með Salsaviðburði í sumar. Höfum farið í sjósund, snorklað, göngutúr um Þingvelli, hellaferð í Leiðarenda og í bíó á Cuban Fury.

Ég skrifaði eftirfarandi fljótlega eftir að ég byrjaði í dansinum:
Ef þig langar að bæta andlega líðan – komdu að dansa
Ef þig langar að bæta líkamlega heilsu – komdu að dansa
Ef þig langar til að eignast fleiri vini og kunningja – komdu að dansa
Ef þig langar að eyða minni tíma með sófanum þínum – komdu að dansa
Ef þig langar að auka félagslíf þitt – komdu að dansa
Ef þig langar til að slökkva aðeins á huganum – komdu að dansa
Ef þig langar í tilbreytingu í líf þitt – komdu að dansa

Já og svo er yndislegt að þurfa ekki að fara á djammið til að fá útrás fyrir dansþörfinni heldur fer maður bara niður í bæ um 9 leytið og er kominn heim um eða eftir miðnætti!

[*] Hver er besta dansminning þín?
Úff púff þær eru svo margar! En held að besta dansminningin sé úr fyrsta danstímanum mínum, þegar ég áttaði mig á því að það væri algjör vitleysa að ég væri með 10 vinstri fætur og gæti aldrei lært að dansa. Heldur var ég bara frekar fljót að pikka allt upp og var með dásamlegan kennara sem hjálpaði gífurlega. Ef ég hefði fengið þurran og leiðinlegan kennara þá er ég ekkert viss um að ég hefði þorað að mæta aftur! Reyndar held ég að það séu engir þurrir og leiðinlegir kennarar í danssamfélaginu! Ég keyrði á fyrsta námskeiðið með í maganum, þvílíkt hraðan hjartslátt og óglatt af kvíða en var búin að semja við mig að mæta allavega einu sinni. En eftir þennan tíma var ekki aftur snúið! Við vorum meira að segja svo fá í tímanum að það sem átti að vera kennt á 5 sunnudögum var kennt á einum klukkutíma og við fórum beint eftir fyrsta klukkutímann upp á næsta námskeið!

Já og þegar ég dansaði í Kringlunni á jibbí jeij dögum, þá 3 mánaða Salsakettlingur. Allar hinar dömurnar voru annað hvort kennarar eða í nemendasýningarhópi SalsaIceland. Mér var bara alveg sama! Dansaði bara þetta litla sem ég kann og fannst ofsalega gaman. Við erum að tala um það að ég fór í fyrsta skipti í snúsnú 2 mánuðum áður. Ég hafði aldrei farið í snúsnú því ég kunni það ekki, gat ekki lært það ein og vildi ekki gera mig að athlægi með að gera mistök fyrir framan aðra. Svo þetta ar ansi mikill sigur fyrir mig!

Já og þegar ég dansaði í fyrsta skipti við Salsakennara 3 mánuðum eftir að ég byrjaði sem sagði að enginn væri svona góður eftir 3 mánuði! 🙂

[*] Uppáhaldsdanslögin þín?
Áður en ég byrjaði að dansa hlustaði ég ekki á Salsalög né Bachatalög. Ég vissi varla hvaða tónlist þetta væri. Nú er ég orðin forfallinn aðdáandi. Ég man að ég spjallaði við eina stelpu á danskvöldi um mánuði eftir að ég byrjaði að dansa sem sagðist hlusta á Salsatónlist heima og í bílnum og svona og ég sagði við hana að það myndi nú aldrei gerast hjá mér og fannst hún nú bara frekar skrýtin (hæ Gyða!). En svona mánuði eftir þetta var fyrsti Salsadiskurinn kominn út í bíl og ég hlusta rosalega mikið á þessa tónlist heima við og í bílnum. Sérstaklega þegar ég er að þrífa.

Uppáhaldslögin mín má finna á playlistunum sem eru á danssíðunum.
http://dansmania.com/dansarnir/bachata/
http://dansmania.com/dansarnir/salsa/
http://dansmania.com/dansarnir/west-coast-swing/

Læt hér líka nokkur fljóta með.

Salsa:

Bachata:

West Coast Swing:

Chachacha:

Kizomba:

(hræðilegur texti samt)

[*] Eitthvað að lokum?
Ef þig langar að byrja að dansa þá er enginn betri tími en akkúrat núna! Það er engin ástæða til að vera hræddur við þetta. Danssamfélagið samanstendur af svo yndislegu fólki.

Social dansarnir eru svo mikil snilld því það þarf ekki að koma með dansfélaga. Salsa og allir þessir dansar eru nefnilega þannig að allir dansa við alla. Námskeiðin virka eins. Ef þú mætir með félaga sem þú vilt bara dansa við þá færðu það en annars er reglan sú að allir dansa við alla og reglulega er skipt um dansfélaga.

Það eru alltaf einhverjir tilbúnir að dansa við byrjendur á danskvöldunum. Þetta er á vissan hátt bara eins og ein stór fjölskylda! Ég segi dansherrunum bara að þeir verði að taka viljann fyrir verkið og svo brosi ég út að eyrum yfir öllu sem ég næ að gera og yfir öllu sem ég næ ekki að gera.

Dansinn snýst heldur ekkert endilega um að verða sem bestur og gera allt fullkomlega – heldur að hafa gaman að þessu.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *