Bjarki Þór

Bjarki

[*] Nafn:
Bjarki Þór Guðmundsson

[*] Aldur:
29 (fæddur 1985)

[*] Starf:
Er sem stendur atvinnulaus, en er á fullu að leita mér að vinnu

[*] Hvenær byrjaðir þú í dansinum?
Haustið 2011

[*] Af hverju byrjaðir þú í dansinum?
Ég ákvað að skella mér vegna þess að mér datt í hug að þetta gæti verið góð leið til að kynnast nýju fólki og ég sé alls ekki eftir því.

[*] Af hverju valdir þú þann dans/þá dansa sem þú dansar?
Þegar ég byrjaði í Háskóladansinum þá var ég fyrst um sinn helst í Swing & Rock‘n‘Roll, West Coast Swing og Salsa. Ég var í Swing & Rock‘n‘Roll vegna þess að þetta var þægilegur dans til að byrja á og ég var nokkuð fljótur að ná tökum á honum, WCS vegna þess að það var hægt að dansa hann við svo fjölbreytta tónlist (og það var hægt að leika sér endalaust með sporin). Að lokum varð Salsa líka fyrir valinu vegna þess að mér fannst það eitthvað svo spennandi og framandi og frá því að ég byrjaði í fyrsta tímanum þá hefur mér alltaf fundist þetta svo skemmtilegt.

[*] Ef þú dansar marga dansa, hver er þinn uppáhalds og af hverju?
Sem stendur þá er ég aðallega í salsanu og er orðinn hluti af hóp sem kallar sig SalsaMafíuna. Það er svo skemmtilegur hópur í kringum þetta og við erum eins og ein stór fjölskylda, fólk á öllum aldri. Það er líka svo þægilegt að læra salsa, grunnsporin eru ekki það flókin og þrátt fyrir að þú kunnir bara grunnsporin þá geturu alveg leikið þér með þau á danskvöldunum.

Alltaf þegar ég hef verið að dansa við byrjendur (bæði í tímunum og á danskvöldum) þá hef ég talað um að það skiptir ekki máli þótt að viðkomandi sé ekki orðinn 100% klár á sporunum, aðalmálið er að hafa gaman.

[*] Hvað er það besta við dansinn?
Það sem mér finnst standa upp úr þegar kemur að dansinum er félagsskapurinn. Ég hef kynnst mörgum af mínum bestu vinum í gegnum dansinn og fyrir mér þá er salsahópurinn eins og mín önnur fjölskylda.

[*] Hver er besta dansminning þín?
Það eru margar sem koma upp í hugann eins og allar þær ferðir sem ég hef farið í sem og útilegurnar með salsa hópnum. Ef ég ætti hins vegar að velja eina minningu, þá myndi það án efa vera þegar ég fór með nokkrum úr salsahópnum mínum til Kúbu í janúar 2014. Þetta var svo framandi og maður var kominn vel út fyrir þægindarammann. Dansmenningin var hreint út sagt frábær og hvert sem maður fór þá var alltaf verið að spila einhverja tónlist.

[*] Uppáhalds danslögin þín?
Mér hefur alltaf fundist erfitt að gera upp á milli hluta en eftir að ég kom frá Kúbu þá eru 2 lög sem koma mér alltaf í dansgírinn: „Vivir Mi Vida“ með Marc Anthony og „Bailando“ með Descemer Bueno og Gente De Zona.

[*] Eitthvað að lokum?
Ég hvet alla til að byrja að læra dans, skiptir engu máli þótt viðkomandi hafi aldrei dansað áður. Þetta er frábær skemmtun og góð leið til að kynnast fólki.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *